Viðskipti innlent

Samtals 500 hafa misst vinnuna í hópuppsögnum í ár

Á árinu 2011 hafa Vinnumálastofnun alls borist 16 tilkynningar um hópuppsagnir, þar sem sagt hefur verið upp samtals 500 manns. Tvær bárust í janúar, þrjár í febrúar, ein í mars, tvær í apríl, fjórar í maí og fjórar í júní.

Af þessum 500 hafa tæplega 200 manns misst vinnuna nú fyrri hluta árs (mars-júní) og ríflega 300 manns munu missa vinnuna næstu mánuði og fram í janúar 2012, en einhverjir þeirra munu að öllum líkindum verða endurráðnir.

Þetta kemur fram á vefsíðu Vinnumálastofunnar. Þar segir að flestar uppsagnir sem borist hafa á árinu 2011 eru úr byggingariðnaði, þar sem uppsagnirnar ná til um 160 manns, eða um þriðjungs þeirra sem sagt hefur verið upp með þessum hætti. Um 18% eru úr fræðslustarsemi, 15% úr verslunarstarfsemi, 14% úr upplýsingastarfsemi og 13% úr heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Flestar tilkynningar á árinu 2011 eru frá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og ná þær til 355 starfsmanna, eða ríflega 70% þeirra sem sagt er upp. Aðrar uppsagnir dreifast nokkuð víða um land.

Alls eru 634 manns sem hafa misst eða koma til með að missa vinnuna á árinu 2011 í kjölfar hópuppsagna sem áttu sér stað seinni hluta árs 2010 og það sem af er árinu 2011, þar af um 150 manns sem var sagt upp á haustmánuðum 2010.

Uppsagnir sem koma til framkvæmda á árinu 2011 dreifast á flestar atvinnugreinar. Mestur er fjöldinn í byggingariðnaði, um 26%, en annars eru þetta 10-15% í fiskvinnslu, veitustarfsemi, verslun, upplýsingastarfsemi, fræðslustarfsemi og heilbrigðis-/ félagsþjónustu.

Um helmingur þeirra sem missa vinnuna á árinu 2011 vegna hópuppsagna koma úr byggingariðnaði, 11% úr iðnaði, sem oft er tengdur byggingariðnaði, og 11% úr flutningastarfsemi, 9% úr upplýsingastarfsemi og 8% úr verslunarstarfsemi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×