Handbolti

Guðjón: Engin fólskubrot í leiknum

Henry Birgir Gunnarsson í Cloetta Center skrifar

Hornamaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson sagði leikinn gegn Norðmönnum hafa verið harðan en leikmenn hefðu þó verið heiðarlegir.

"Aftur áttum við stórkostlegan seinni hálfleik en ég ætla samt ekki að segja að fyrri hálfleikur hafi verið eitthvað slæmur. Norðmennirnir voru augljóslega búnir að kortleggja okkur vel og voru með fullt af kerfum sem við höfum ekki verið að glíma við.

"Þetta var hægur leikur þannig séð og ekki beint draumur hornamannsins. Frábært hvernig seinni hálfleikurinn var. Vörnin og Bjöggi detta í gang, við fáum hraðaupphlaupin og klárum leikinn," sagði Guðjón.

"Þetta var vissulega harður leikur en menn voru heiðarlegir. Dómararnir leyfðu mikið og mér fannst ekki vera mikið samræmi í dómgæslunni. Það eru stórir og miklir kallar í báðum liðum. Það var hart tekist á en engin fólskubrot," sagði Guðjón en hvað með framhaldið?

"Frábært að ná að klára þetta. Við erum samt bara að einbeita okkur að næsta leik og verðum klárir í slaginn í Þjóðverjaleiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×