Viðskipti innlent

Staðfestir að leita álits EFTA dómstólsins um aflandskrónur

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að leitað verði ráðgefandi álitis hjá EFTA dómstólnum um innflutning á aflandskrónum til landsins.

Samkvæmt gögnum málsins seldi Pálmi Sigmarsson fasteign 25. október 2009 sem hann átti á Bahama og keypti íslenskar krónur fyrir söluandvirðið í Bretlandi. Pálmi sótti síðan um undanþágu frá þágildandi reglum um gjaldeyrismál til Seðlabankans 8. desember 2009 til að mega flytja inn innlendan gjaldeyri til landsins og vísaði í því sambandi til laga um gjaldeyrismál frá árinu 1992.

Seðlabankinn hafnaði umsókn varnaraðila 26. febrúar 2010 og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins 8. október sama ár.

Pálmi höfðaði þá mál á hendur Seðlabankanum 3. nóvember 2010 og krafðist þess meðal annars að ákvörðun bankans frá 26. febrúar sama ár yrði dæmd ógild. Pálmi reisti kröfu sína meðal annars á því að ákvörðunin sé andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga milli aðildarríkja.

Seðlabankinn kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem tekið hefur til greina kröfu Pálma um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins .

Í Hæstarétti var talið að skýra yrði hinar matskenndu heimildir fyrrgreindra laga til að veita undanþágur frá takmörkunum á fjármagnshreyfingum með tilliti til 4. kafla III. hluta EES-samningsins sem lagagildi hefði hér á landi. Var héraðsdómur því staðfestur.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×