Handbolti

Tíu íslensk mörk í tíu marka tapi - Bergischer úr fallsæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Kárason í leik með Bergischer.
Rúnar Kárason í leik með Bergischer.
Tvö Íslendingalið voru í eldlínunni í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Hannover-Burgdorf tapaði fyrir Göppingen á útivelli, 34-24, en Rúnar Kárason var í sigurliði þegar að Bergischer vann öflugan sigur á Gummersbach, 31-29, á útivelli.

Rúnar skoraði þrjú mörk í leiknum en Gummersbach hafði yfirhöndina í hálfleik, 14-13. Bergischer náði hins vegar að síga fram úr á síðustu tíu mínútum leiksins og vinna sigur.

Ásgier Örn Hallgrímsson skoraði sex mörk fyrir Hannover-Burgdorf í kvöld, Hannes Jón Jónsson þrjú og Vignir Svavarsson eitt. Semsagt alls tíu íslensk mörk í leiknum en samt sá Hannover-Burgdorf aldrei til sólar í leiknum. Staðan í hálfleik var 16-8, Göppingen í vil.

Að síðustu vann Flensburg þriggja marka sigur á nýliðum Hüttenberg, 29-26.

Með sigrinum í kvöld komst Bergischer upp úr fallsæti og er liðið nú með átta stig í fimmtánda sæti. Gummersbach féll í það sextánda með tapinu.

Hannover-Burgdorf er í þrettánda sæti deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×