Jerry Sloan hætti í kvöld sem þjálfari Utah Jazz liðsins í NBA-deildinni í körfubolta en hann er búinn að þjálfa liðið í 23 ár og hefur stýrt liðinu til sigurs í 1127 leikjum.
Phil Johnson, aðstoðarmaður Sloan í þessi 23 ár, er einnig hættur en næsti þjálfari Utah Jazz verður Tyrone Corbin sem lék á sínum tíma undir stjórn Sloan hjá Utah.
Sloan sagði á blaðamannafundi að þetta væri algjörlega hans ákvörðun og að félagið hafi reynt að tala hann til en án árangurs. Hann var ákveðinn í því að nú væri kominn tími til að gera eitthvað annað.
Það hafði enginn verið lengur í starfi í fjórum stærstu atvinnumannadeildunum í Bandaríkjunum en Sloan tók við Utah-liðinu árið 1988.
Jerry Sloan hættur hjá Utah eftir 23 ára starf
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
