Viðskipti innlent

Þrotabú Roku höfðar mál á hendur Nýherja

Þrotabú Roku ehf. hefur höfðað mál á hendur Nýherja hf. Sökum þessa hefur Nýherji sent Kauphöllinni tilkynningu um málið.

Fyrir hönd Nýherja hf. er Kauphöll Íslands hér með send svofelld tilkynning:

„Með kaupsamningi dagsettum 2. janúar 2009 tók Nýherji hf. við rekstri félaganna, Skyggnis hf., TMS Origo ehf., EMR ehf., Vigor ehf., Viðju ehf., TM Software ITP ehf. og Theriak Medication Management ehf., úr höndum dótturfélags síns, Roku ehf. (áður TM Software ehf.). Jafnframt keypti Nýherji fasteignir og lausafé dótturfélagsins.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 17. mars 2010 var bú Roku ehf. tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 7. maí 2010 í máli nr. 205/2010.

Miðvikudaginn 19. janúar sl. höfðaði þrotabú Roku ehf. mál á hendur Nýherja hf. til riftunar á ráðstöfun ofangreindra eigna samkvæmt kaupsamningum aðila og til greiðslu tjónsbóta.

Nýherji hf. hafnar kröfum þrotabúsins, sem félagið telur ekki á rökum reistar. Félagið telur sig hafa greitt rétt verð fyrir eignirnar og að jafnræðis allra kröfuhafa þrotabúsins hafi verið gætt. Félagið mun því grípa til varna gegn kröfum þrotabúsins.

Nýherji hf. á umtalsverðar kröfur á hendur Roku ehf. sem félagið lýsti við gjaldþrotaskiptin. Óvissa ríkir um samþykki krafna í þrotabúið en fari svo ólíklega að dómstólar samþykki bótakröfur þrotabúsins mun hugsanleg bótagreiðsla væntanlega renna að verulegu leyti aftur til Nýherja hf. og draga þannig úr fjárhagslegri áhættu félagsins af málshöfðun þrotabúsins."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×