Innlent

Sátt náðst um stjórnarráðsfrumvarpið - deilt um sigra og ósigra

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Sátt hefur náðst um stjórnarráðsfrumvarpið eftir samningaviðræður á milli flokka í allan dag. Stjórnarandstaðan segir forsætisráðherra hafa beðið ósigur.

Í sáttinni felst að skipan ráðuneyta verði í höndum þingsins í formi þingsályktunartillögu en ekki með lagasetningu, líkt og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Í upphaflegu frumvarpi forsætisráðherra var kveðið á um að það vald yrði fært forsætisráðuneytinu en þær hugmyndir þóknuðust ekki stjórnarandstöðunni og nokkrum þingmönnum meirihlutans. Ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson höfðu báðir áður lýst því yfir að þeim litist illa á frumvarpið.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar fagna þessari niðurstöðu og segja það mikilvægt að þingið haldi þessu valdi sínu. Forsætisráðherra hafi beðið vissan ósigur í þessu máli að mati Illuga Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Starfandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar kveðst ánægður með þessa sátt. Þetta sé enginn ósigur forsætisráðherra því meirihluti þingmanna hafi ávallt átt að tryggja forsætisráðherra lýðræðislegt vald.

Málið hefur tafið þingstörf og því hefur ekki tekist að ljúka þeim tæpu fimmtíu málum sem á eftir að greiða atkvæði um fyrir þinglok. Nú verður því reynt að ljúka þingstörfum sem fyrst.

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, segir að þinginu ljúki á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×