Viðskipti innlent

Yfir 2.000 teknir af atvinnuleysisbótum

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir flesta taka því illa að vera sviptir bótunum. fréttablaðið/vilhelm
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir flesta taka því illa að vera sviptir bótunum. fréttablaðið/vilhelm
Alls voru 1.222 manns teknir af atvinnuleysisbótum í fyrra þar sem þeir voru ekki virkir í atvinnuleit. Fyrstu sjö mánuði þessa árs hafa 875 verið sviptir bótunum af sömu ástæðu, að því er Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, greinir frá. Samtals hafa því 2.097 verið sviptir bótum. „Þetta á við þá sem hafnað hafa starfstilboði eða hafnað því að sækja svokölluð virkniúrræði eða mætt illa á slík námskeið þar sem er skyldumæting,“ greinir forstjórinn frá.

Gissur segir að flestir taki því illa að vera sviptir bótunum. „Menn gera sér ekki alltaf grein fyrir því að þetta snýst ekki bara um réttindi, heldur einnig um skyldur. Þetta eru annars vegar réttindi til þess að fá bætur og hins vegar skyldur til þess að vera virkur í vinnuleit. Við erum alla daga að leiðbeina fólki við að koma sér af bótum í vinnu eða nám.“

Að sögn Gissurar hefur þeim sem misst hafa bætur af fyrrgreindum ástæðum fjölgað jafnt og þétt. „Aukningin frá 2009 er mikil. Atvinnuleysið vex og afleiðingar þess aukast jafnframt.“

Vinnumálastofnun hefur haft spurnir af vinnuveitendum sem nýta sér þekkingarleysi fólks á vinnumarkaði og kjarasamningum. „Það eru dæmi um slíkt. Menn eru að semja um laun sem ekki standast kjarasamninga og annað þess háttar,“ segir Gissur.

Hann segir starfsmenn Vinnumálastofnunar hafa heyrt af vinnuveitendum sem ráði ekki fólk nema það sé reiðubúið til að stunda svarta vinnu.

„Ég veit ekki hvað menn fá út úr því annað en að losna við skatt og fela svartar tekjur. Við höfum ekki miklar spurnir af þessu en ég reikna með að þetta sé fyrir hendi. Þessi tilvik hafa ekki komið inn til okkar auk þess sem þetta myndu verða síðustu vinnuveitendurnir sem við vísum fólki til.“

Undanfarið hafa komið upp allmörg dæmi um fólk, sérstaklega iðnaðarmenn, sem skráðir hafa verið á atvinnuleysisskrá en hafnað tilboði um atvinnu. Skráð atvinnuleysi í júní síðastliðnum var 6,7 prósent. Í maí var skráð atvinnuleysi 7,4 prósent en 8,1 í apríl. Að meðaltali voru 11.704 manns atvinnulausir í júnímánuði.

ibs@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×