Handbolti

HM 2011: Hanna telur að Ísland geti unnið Þjóðverja

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta undirbýr sig af krafti fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í næstu viku í Brasilíu. Ísland leikur tvo æfingaleiki um helgina gegn Tékkum í Vodafonehöllinni. Landsliðskonan Hanna G. Stefánsdóttir leikmaður Stjörnunnar segir að markmiðið sé að enda í einu af fjórum efstu sætunum í A. riðli og komast þar með í 16-liða úrslit.

Hanna telur að Ísland geti náð góðum úrslitum gegn Þjóðverjum. „Með toppleik getum við unnið Þjóðverja," segir Hanna í viðtali sem Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttamaður Stöðvar 2 tók í gær.

Fyrri æfingaleikurinn gegn Tékkum er á föstudagskvöld og hefst hann 19.30. Á laugardag mætast liðin á ný og hefst sá leikur 14.30.

„Stemningin er góð í hópnum. Það er vel tekið á því á æfingum. Stefnan er tekin á það að fara upp úr riðlinum," segir Hanna en Ísland er í riðli með Noregi, Svartfjallandi Angóla, Þýskalandi og Kína í riðli.

Dagskrá yfir beinar útsendingar frá HM í Brasilíu á Stöð 2 sport:

Noregur, sem Íslendingurinn Þórir Hergeirsson þjálfar, vann til bronsverðlauna á síðasta heimsmeistaramóti sem fram fór í Kína árið 2009. Noregur er líklegt til afreka á mótinu en mögleikar Íslands liggja fyrst og fremst í því að ná góðum úrslitum gegn Angóla og Kína.

„Við vitum ekki mikið en Angóla og Kína eru með sterk lið. Það verður enginn leikur auðveldur í þessum riðli. Við gerum okkar besta og þá erum við til alls líklegar. Við þurfum að ná upp sterkum varnarleik gegn sterkari þjóðunum. Norðmenn eru með mjög sterkt lið og það skiptir engu máli þótt einhver detti út úr því liði. Það kemur alltaf maður í manns stað. Með toppleik þá eigum við mögleika gegn Noregi og við gætum líka unnið Þjóðverja," segir Hanna G. Stefánsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×