Viðskipti innlent

Lægri gjöld til framkvæmda

Lánsfjárþörf ríkisins var lægri árið 2010 en búist hafði verið við. Framlög til atvinnumála og framvæmda lækkuðu frá árinu 2009. Velferðarmálin útgjaldafrekust og virðisaukaskattur skilar mestum tekjum.
Lánsfjárþörf ríkisins var lægri árið 2010 en búist hafði verið við. Framlög til atvinnumála og framvæmda lækkuðu frá árinu 2009. Velferðarmálin útgjaldafrekust og virðisaukaskattur skilar mestum tekjum. Mynd/Stefán Karlsson
Heildartekjur ríkissjóðs árið 2010 námu tæpum 479 milljörðum króna. Gjöldin námu tæpum 602 milljörðum króna og halli á rekstri ríkissjóðs nam því rúmum 123 milljörðum króna. Það er 41 milljarði króna meiri halli en reiknað hafði verið með.

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá skýrist það að mestu leyti af aukaframlagi til Íbúða-lánasjóðs, en það nam 33 milljörðum króna.

Þegar ríkisreikningur ársins 2010 er skoðaður kemur í ljós að virðisaukaskattur skilar mestum tekjum í ríkissjóð, eða 25,9 prósentum af heildartekjum. Næststærsti tekjuliðurinn er skattar á tekjur og hagnað einstaklinga, sem nam 19,6 prósentum af heildartekjum. Tryggingagjöld skiluðu 13,3 prósentum af tekjum ríkisins.

Velferðarkerfið er sem fyrr stærsti útgjaldaliður ríkisins. Þar vega almannatryggingar og velferðarmál mest, en til þeirra var varið 135,1 milljarði króna á árinu 2010, eða 22,4 prósentum af öllum heildarútgjöldum. Gjöld til almennrar opinberrar þjónustu námu 19,2 prósentum af heildarútgjöldum.

Afskrifa þurfti skattkröfur um 5,1 milljarð króna, en ríkissjóður greiddi 1,6 milljörðum króna lægri fjármagnstekjuskatt en reiknað hafði verið með. Það skýris89+t af minni lánsfjárþörf og lægri vaxtakostnaði með uppgreiðslu lána.

Gjöld til efnahags- og atvinnumála lækkuðu um 8,4 milljarða frá árinu 2009, eða um 16,6 prósent að raungildi. Þar skipa vegasamgöngur veigamikinn sess, en einnig greiðslur vegna landbúnaðar og flugsamgangna.

Vegasamgöngur koma einnig við sögu í gjöldum vegna viðhalds og stofnkostnaðar, en þau lækkuðu umtalsvert á milli ára eða um 31 prósent að raungildi. Ríkið varði því umtalsvert lægri fjárhæðum til framkvæmda á árinu 2010 en 2009.

Launakostnaður ríkisins lækkaði um 5,5 prósent að raungildi, sé tekið mið af breytingum á neysluverðsvísitölu. Skýrist það af fækkun starfsfólks og færri reiknuðum ársverkum, en þeim fækkaði um 416 á milli ára.

kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×