Innlent

Aldrei of varlega farið með flugelda

Það er aldrei of varlega farið með þetta eldfima, springandi himnaskraut.
Það er aldrei of varlega farið með þetta eldfima, springandi himnaskraut.
Ríflega fjörtíu manns, börn og fullorðnir, leituðu á bráðamóttöku Landspítalans síðustu nýársnótt eftir flugeldaslys. Yfirlæknir segir dæmi um að fólk hafi misst sjón og jafnvel augu. Mikilvægt sé að fólk hafi í huga að um eldfim sprengiefni sé að ræða sem þurfi að umgangast með virðingu.

Gamlárskvöld er jafnan rólegt framan af á bráðamóttökunni en um leið og áramótaskaupið klárast byrjar fólk að leita á deildina með áverka eftir flugelda. Síðustu nýársnótt leituð að meðaltali fimm á klukkustund á deildina með slíka áverka.

„Við sáum síðustu nýársnótt þá komu áttatíu og eitthvað manns á milli miðnættis og átta og þar af voru meira en helmingurinn slys tengd flugeldum," segir Elísabet Benediktsdóttir, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum.

Elísabet segir mikið álag jafnan fylgja nóttinni og aukafólk því á vakt. Hún segir lækna sjá ljóta áverka eftir flugeldaslys og oft sjáist nokkrir hverja nýársnótt með alvarlega augnáverka. ,, Fólk hefur fengið ljóta bruna í andlitið. Það hefur misst sjónina og jafnvel augu".

Hún leggur áherslu á að fólk hugi að öryggi, sé með hlífðargleraugu, fylgi leiðbeiningum, hafi góðar undirstöður og passi öryggi á skotstað.

Elísabet segir bæði börn og fullorðna koma á bráðamóttökuna.

„Það eru mörg slys sérstaklega varðandi unglingsstráka sem eru að fikta við flugelda, eru að breyta flugeldum og búa til sprengjur, það hefur oft endað illa. Í öðru lagi, flugeldar og áfengi er varasöm blanda og menn verða að passa sig. Þetta eru sprengiefni, það má ekki gleyma því, þó það séu litlar sprengingar þá eru þetta eldfim sprengiefni sem verið er að meðhöndla og það þarf að umgangast það með virðingu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×