Sport

Bröndby martröðin heldur áfram hjá Stefáni

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Stefán Gíslason mun ekki skrifa undir samning við skoska úrvalsdeildarliði Aberdeen vegna klúðurs hjá forráðamönnum danska liðsins Bröndby.
Stefán Gíslason mun ekki skrifa undir samning við skoska úrvalsdeildarliði Aberdeen vegna klúðurs hjá forráðamönnum danska liðsins Bröndby. Nordic Photos/Getty Images
Stefán Gíslason mun ekki skrifa undir samning við skoska úrvalsdeildarliðið Aberdeen vegna klúðurs hjá forráðamönnum danska liðsins Bröndby. Knattspyrnustjóri Aberdeen, Craig Brown, hafði gert sér vonir um að íslenski landsliðsmaðurinn gæti leikið með liðinu það sem eftir er leiktíðar.

Stefán, sem var á mála hjá danska liðinu Bröndby, gerði starfslokasamning við liðið í vetur en forráðamenn liðsins gleymdu að skila inn þeim gögnum til UEFA áður en frestur til þess rann út í lok janúar. Brown segir í viðtali við Sky fréttastofuna að allt hafi verið klárt á milli Aberdeen og Stefáns.

„Það var allt klárt, en þegar við skoðuðum málið nánar komumst við að því að Bröndby hafði ekki rift samningnum hans áður en fresturinn rann út. Þeir áttu að klára það fyrir lok janúar en þeir skiluðu gögnunum 4. febrúar. Við gátum því ekki klárað samninginn. Umboðsmaður hans var miður sín og við erum einnig vonsviknir að fá ekki leikmann sem hefði styrkt liðið," sagði Brown.

Knattspyrnustjórinn á von á því að Aberdeen nái samkomulagi við Stefán samt sem áður og yrði hann þá löglegur með liðinu á næstu leiktíð. Aberdeen er í níunda sæti af alls tólf liðum í skosku úrvalsdeildinni.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem að klúður á skrifstofu fótboltaliðs bitnar á íslenskum leikmanni. Eiður Smári Guðjohnsen gat ekki leikið með Fulham gegn Bolton í ensku bikarkeppninni um s.l. helgi þar sem að það gleymdist að sækja um keppnisleyfi fyrir hann í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×