Handbolti

HM kvenna: Frönsku stelpurnar unnu Dani og fóru í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Franska kvennalandsliðið í handbolta er komið í úrslitaleikinn á HM í Brasilíu eftir fimm marka sigur á Danmörku, 28-23, í undanúrslitaleik í kvöld. Þetta er önnur heimsmeistarakeppnin í röð sem Frakkland fer í úrslitaleikinn en þær töpuðu fyrir Rússum fyrir tveimur árum. Frakkar mæta annaðhvort Noregi eða Spáni í úrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleikurinn hefst klukkan tíu.

Danska landsliðið var búið að vinna sjö fyrstu leiki sína í keppninni fyrir þennan leik en Frakkar hafa nú slegið út Svíþjóð, Rússland og Danmörku á leið sinni í úrslitaleikinn.

Franska liðið varð fyrir miklu áfalli þegar ein helsta stjarna liðsins, Allison Pineau, meiddist eftir aðeins tvær mínútur. Danir náðu í framhaldinu góðum spretti og komust yfir í 7-4.

Franski þjálfarinn tók þá leikhlé, franska liðið var fljótt að jafna leikinn í 7-7 og var síðan komið með tveggja marka forskot í hálfleik, 14-12.

Frakkar skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiksins og voru þá komnar í 16-12. Frakkar náðu mest sex marka forskoti, 20-14 en Danirnir komu sér aftur inn í leikinn.

Danska liðið náði nokkrum sinnum að minnka muninn í tvö mörk en nær komust þær ekki og Frakkland fagnaði að lokum öruggum sigri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×