Sundsvall Dragons eru sterkir á heimavelli og sýndu það enn á ný í sigri á Norrköping Dolphins, 87-79, í framlengdum leik í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Sundsvall var búið að tapa tveimur útileikjum í röð en var þarna að vinna áttunda heimasigurinn í aðeins níu leikjum.
Jakob Örn Sigurðarson, nýkrýndur körfuboltamaður ársins 2011, var með 20 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar í leiknum, Pavel Ermolinskij var með 15 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum og Hlynur Bæringsson skoraði 13 stig og tók 15 fráköst.
Sundsvall byrjaði leikinn mjög vel, var komið í 8-2 eftir þrjár mínútur og var síðan yfir 13-7 og 17-13. Norrköping kom til baka en Sundsvall leiddi að lokum 21-20 eftir fyrsta leikhlutann.
Norrköping skoraði fimm fyrstu stig annars leikhlutans og var 29-31 yfir þegar íslensku landsliðsmennirnir fóru í gang. Pavel, Hlynur og Jakob skoruðu næstu níu stigin í leiknum og fimm stig til viðbótar frá Jakobi kom Sundsvall í 43-33.
Sundsvall var síðan 45-35 yfir í hálfleik og Jakob var með 11 stig og 5 stoðsendingar í fyrri hálfleiknum, Pavel var með 7 stig og 5 stoðsendingar og Hlynur skoraði 7 stig og tók 6 fráköst í fyrri hálfleiknum.
Hlynur og Jakob byrjuðu seinni hálfleikinn á körfum eftir stoðsendingar frá Pavel og Sundsvall náði mest ellefu stiga forskot en Norrköping minnkaði muninn í sex stig, 60-54, fyrir lok leikhlutans.
Norrköping hélt áfram að éta upp forskotið og munurinn var kominn niður í eitt stig, 65-43, þegar rúmar þrjár mínútum voru liðnar af fjórða leikhlutanum. Norrköping komst yfir, 66-67, tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum.
Norrköping var 73-71 yfir en Hlynur Bæringsson jafnaði leikinn í 73-73 þegar níu sekúndur voru eftir af. Norrköping tókst ekki að nýta lokasókn sína og því varð að framlengja.
Sundsvall tapaði síðasta leik í framlengingu en var reynslunni ríkari að þessu sinni og tryggði sér sigur í leiknum með að vinna framlenginguna 14-6.
Sundsvall vann í framlengingu á móti Norrköping
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


Ekki pláss fyrir Rúnar í flugvélinni: „Ég fórnaði mér í þetta“
Íslenski boltinn

Í beinni: Vestri - Fram | Úrslitaleikur undir
Íslenski boltinn





Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti

