Erlent

Þúsundir mæta til að syrgja leiðtogann

Hágrátandi Norður-kóreski herinn syrgði hinn látna leiðtoga með miklum tilþrifum.nordicphotos/AFP
Hágrátandi Norður-kóreski herinn syrgði hinn látna leiðtoga með miklum tilþrifum.nordicphotos/AFP
Norður-Kórea Arftakinn Kim Jong-un var í fararbroddi syrgjenda við útför föður síns í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu. Hann gekk við líkbifreiðina, með aðra hönd á bílnum en notaði hina til að heilsa fólki.

Líkfylgdin tók hálfan þriðja tíma og að henni lokinni skutu hermenn 21 sinni úr rifflum sínum. Nýi leiðtoginn stóð síðan og heilsaði meðan fylkingar hermanna gengu gæsagang framhjá honum.

Ekki vantaði leikrænu tilþrifin í athöfnina, ef marka má útsendingu norður-kóreska ríkissjónvarpsins. „Hvernig getur það verið að himnarnir gráti ekki?“ heyrðist hágrátandi hermaður spyrja. „Fólkið grætur allt tárum úr blóði.“ Af sumum myndunum að dæma er þó ekki annað að sjá en himnarnir hafi heldur ekki staðist mátið og hellt úr skýjum yfir syrgjendurna.

Arftakinn hefur treyst völd sín síðustu daga með því að bæta við sig embættum og titlum, bæði innan flokksins og í yfirstjórn hersins. Ungur aldur hans og lítil reynsla gerir þó að verkum að nokkur óvissa ríkir um framtíðarstöðu hans í valdakerfinu. Hann hafði enda ekki haft tuttugu ár til að búa sig undir hlutverkið, eins og faðir hans, heldur aðeins tvö ár.

Hann tekur við einu fátækasta og einangraðasta ríki veraldar. Auk þess að þurfa að finna leiðir til að tryggja íbúum landsins daglega fæðu og aðrar helstu lífsnauðsynjar þarf hann að takast á við harða gagnrýni og þrýsting frá öllum helstu ríkjum heims vegna kjarnorkuvopna, sem faðir hans var búinn að koma sér upp í einhverri mynd.

Athygli sérfræðinga í málefnum Norður-Kóreu beinist samt mjög að innsta hring valdakjarnans í kringum Kim, og var grannt fylgst með því hverjir væru áberandi nálægt honum í athöfninni í gær.

Þar er helst nefndur Jang Song-thaek, mágur Kim Jong-il, en hann er varaformaður varnarmálanefndar ríkisins og mun líklega gegna lykilhlutverki við að koma nýja leiðtoganum inn í embættið.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×