Erlent

Rúmið hristist rækilega og tré féll á grafir

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Fárviðrið Dagmar gekk yfir Noreg í nótt og hélt þaðan til Svíþjóðar, en tæplega sjötíu þúsund heimili eru ennþá rafmagnslaus þar í landi vegna veðurofsans.

Óveðrið gekk yfir Noreg í nótt og þykir mesta mildi að ekkert manntjón varð, en tímanlega var varað við veðrinu svo að fólk hafði gert ráðstafanir til að takmarka tjón af völdum þess. Abrahallen, íþróttahús Rosenborg liðsins í Þrándheimi, hrundi til grunna í óveðrinu og fauk allt sem fokið gat og lokuðu tré meðal annars vegum.

Þráinn Haraldsson, segir aftakaveður hafa verið og miklar skemmdir hafa orðið af völdum þess.

„Það gekk á með kröftugum kviðum. Rúmið heima hristist rækilega og tré féllu meðal annars í kirkjugarði, yfir grafir," segir Þráinn, sem býr í Noregi.

Frá Noregi hélt óveðrið Dagmar svo til Svíþjóðar, en tæplega tvöhundruð þúsund heimili voru rafmagnslaus vegna veðurofsans þar í landi í morgun. Viðgerðarteymi voru send út, en erfiðlega hefur gengið að komast að þeim stöðum þar sem viðgerð þarf að fara fram.

Nú rétt fyrir fréttir voru um sjötíu þúsund heimili enn án rafmagns og hafa verið síðan í morgun. Mikið ringulreiðarástand hefur ríkt á þjóðvegum Svíþjóðar í dag, en margir vegir eru lokaðir vegna fallinna trjáa og er fólk hvatt til að vera ekki á ferli og halda sig innandyra. Vindhviður hafa farið hvað mest í dag yfir fjörutíu metra á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×