Handbolti

Knútur: Eigum ekki fyrir farinu heim

Sigurður Elvar Þórólfsson í Barueri skrifar
Knútur Hauksson fylgdist vel með stelpunum okkar í Brasilíu.
Knútur Hauksson fylgdist vel með stelpunum okkar í Brasilíu. Mynd/Pjetur
„Ég er gríðarlega stoltur af þessu liði eins og öll þjóðin. Þetta eru æðislegar stelpur, miklir fagmenn, og náum flottum árangri á fyrsta heimsmeistaramótinu. Þær gefast aldrei upp og þetta er bara yndislegur hópur,“ sagði Knútur Hauksson, formaður Handknattleikssambands Íslands, í gær í Barueri.

Knútur á dóttur í liðinu, Karen Knútsdóttur, og það verður seint sagt að formaðurinn hafi ekki lifað sig inn í leikina hér á HM í Brasilíu.

„Það er mikið verk sem unnið hefur verið af starfsmönnum HSÍ í kringum þetta mót sem og önnur stórmót. Við erum með um 100 landsleiki á ári hjá öllum landsliðum og þetta er gaman þegar vel gengur,“ sagði formaðurinn en hann hefur líkt og aðrir stjórnarmenn unnið hörðum höndum að því að útvega fjármagn í rekstur HSÍ.

„Þetta gengur allt saman upp að lokum en ég segi það á hverju stórmóti að staðreyndin er sú að við eigum ekki fyrir farinu heim. Þá tökum við bara „Íslendinginn á þetta“ og reynum að redda þessu. Staðan er alltaf sú sama hjá okkur, það erfiðasta við þetta allt saman er að við vitum aldrei hvaða fjárhagsstuðning við fáum áður en lagt er í svona stórmót.“

„Ég hef stundum gantast með það að það þyrfti að setja í gang söfnun, „stelpurnar heim“. Við erum ekki alltaf búnir að sjá fyrir endann á þessu þegar við leggjum af stað. Þannig er þetta hjá okkur og við gerum bara það sem þarf að gera til þess að redda hlutunum frá degi til dags. En á svona dögum þar sem góður árangur næst þá gleymir maður öllu því neikvæða sem fylgir þessum rekstri,“ sagði Knútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×