Skoðun

Ómálga líf

Valgarður Egilsson skrifar
Það eru nokkur lögmál í lifandi náttúru sem hafa yfir sér einhverja frumfegurð.

a) Lífið er undarlegra en dauðinn. Fyrir ævalöngu var óreiða af hljóðum og tónum í loftinu – allt líflaus óreiða og hafði ekki merkingu. Svo á einhverju stigi kom einhver Beethoven og raðaði upp þessum tónum (sem aðskildir höfðu enga merkingu haft), raðaði þeim upp saman – svo haganlega, að til varð ómæld fegurð, níunda sinfónía Beethovens.

Og: einu sinni voru líka milljón-trilljón atóm og mólekúl … ein líflaus óreiða í heiminum – líflaus með öllu. Einhvern veginn hafa sameindirnar raðast upp saman … og svo nett, að til er orðin lifandi vera – úr þessum trilljón sameindum (sem hver um sig, aðskildar, voru lífvana). 

Frá lífvana efni verður til lifandi maður, hugur – vitund, tilfinningar, hugsun. 

Lífið er undarlegra en dauðinn.

 b) Fóstrið endurtekur (á fyrstu þroskaskeiðum sínum) sögu dýranna – dýrin virðast eiga sama upphaf. Framan af fylgir mannsfóstrið svipaðri leið og fóstur annarra spendýra, oft í smáatriðum sameinda. Síðar fer það að víkja smávegis útaf alfaraveginum – þeirri leið sem flest fóstur fara – og við fæðingu er hægt að greina mun á barni órangútans og manns – samt er munurinn furðulítill. Lítið eitt af erfðaefninu hefur þó tekið breytingum. Það hafa tapast einhverjir stúfar, annars staðar eitthvað bæst við.

Hversu mikið er eftir af dýrinu í okkur? spyr einhver. Svar: Næstum allt.

c) Fegurðina á enginn. Það er aðeins hægt að verða vitni að henni.

d) Ætt þín er rakin aftur – í ljós og mold.

e) Ómálga börn hugsa í myndum, það gera ómálga dýrin líka (staðhæfing höf.).

Skynsemi ómálga barna er mikil – en hún er án tungumáls – sbr. allt það sem kjúklingurinn kann – strax og hann er skriðinn úr egginu, fer hann að tína fræ og velur þau bestu af kostgæfni; hann kann það, og hugsar sinn gang. Hann kann margt fleira. Og það án þess að kunna neitt tungumál. Ályktun: Það þarf ekki allaf tungumál til að hugsa með.




Skoðun

Sjá meira


×