Skoðun

Við áramót

Bjarni Benediktsson skrifar
Í lok árs er við hæfi að líta til baka yfir hið liðna, hvort sem er á hinum pólitíska vettvangi eða á öðrum sviðum þjóðlífsins. Til gleðiefna telst árangur fremsta íþróttafólks okkar á alþjóðavettvangi, ekki síst kvennalandsliðanna í handknattleik og knattspyrnu.

Íslenskir listamenn, eins og Gyrðir Elíasson sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, halda einnig áfram að bera hróður landsins víða. Nýtt tónlistarhús var tekið í notkun, við fögnuðum aldarafmæli Háskóla Íslands og 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar svo nokkrir ánægjulegir viðburðir séu nefndir.

Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að margir bundu vonir við að á þessu ári myndi hagur þeirra vænkast. Þær vonir brugðust því miður þrátt fyrir að ytri skilyrði hafi á margan hátt verið hagstæð. Enn og aftur voru skattar hækkaðir og aðrar álögur auknar á fólk og fyrirtæki.



Umbrot víða um heim

Arabíska vorið breiddist hratt út í ríkjum Norður-Afríku. Fyrstu kosningarnar eftir mótmælabylgjuna fóru fram í Túnis í október og þóttu þær takast vel. Miklu varðar að lýðræðisumbæturnar verði varanlegar, að haldið verði áfram á sömu braut og að lýðræðið breiðist út til fleiri ríkja. Það er brýnt hagsmunamál íbúa svæðisins og um leið heimsbyggðarinnar allrar. Því miður er það hins vegar langt í frá sjálfsagt.

Fjármálamarkaðir um allan heim hafa skolfið á árinu og óróanum er enn ekki lokið. Ríkisstjórnir í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar leita leiða til lausnar á skuldavandanum og áhyggjur af grundvelli samstarfsins um evruna varpa skugga á framtíðarhorfurnar. Á sama tíma eru ýmis ríki Asíu enn að auka efnahagslegan styrk sinn. Brasilía og jafnvel Rússland eru á sömu braut. Þessi breytta heimsmynd er meðal þess sem ríki Evrópu reyna að bregðast við í tíma og fullt tilefni er til að ræða af meiri alvöru hér á landi.



Vannýtt tækifæri

Góður afli, ekki síst í uppsjávartegundum, skilaði þjóðarbúinu gríðarlegum verðmætum. Í stað þess að nýta tækifærin sem í sjávarútveginum felast er greininni haldið í spennitreyju með stöðugum hótunum um að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða. Í sundurlyndi sínu getur ríkisstjórnin samt sem áður ekki einu sinni komið sér saman um með hvaða hætti kippa eigi stoðunum undan útgerð og fiskvinnslu.

Afleiðing þessa stjórnleysis er hrun fjárfestinga. Án fjárfestinga verður ekki sótt fram til bættra lífskjara og samkeppnishæfni landsins aukin. Án þeirra verða ekki til ný störf. Fjandsamleg afstaða til atvinnulífsins almennt hefur dregið kjarkinn úr innlendum og erlendum fjárfestum.

En áföllin hafa ekki eingöngu verið vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda. Öflugt eldgos í Grímsvötnum minnti okkur óþægilega á að þrátt fyrir allt erum við á valdi náttúrunnar og enn á ný sýndi það sig hve mikilvægu hlutverki vísindamenn okkar og viðbragðssveitir gegna. Þrátt fyrir þetta gos og Eyjafjallagosið 2010 dafnaði ferðaþjónustan á árinu og áralangt markaðsstarf skilaði sér. Kannski er það vegna velgengninnar sem ríkisstjórnin telur rétt að skattleggja ferðaþjónustuna sérstaklega.



Hæstiréttur virtur að vettugi

Gamall draumur forsætisráðherra um skipan stjórnlagaþings snérist upp í martröð þegar Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu að kosningin hefði verið ógild. Forsætisráðherra ákvað að virða niðurstöðu Hæstaréttar að vettugi og með stuðningi stjórnarþingmanna var nafni stjórnlagaþingsins breytt og stjórnlagaráð skipað. Ráðið lauk störfum, tillögur þess voru afhentar forseta Alþingis en hafa ekki enn verið ræddar.

Athygli vekur að enginn alþingismaður hefur gert tillögur ráðsins að sínum - tillögur sem kostuðu skattgreiðendur um hálfan milljarð króna.



Breytt Evrópa

Oft hefur það verið broslegt að fylgjast með þegar forsætisráðherra neitar að horfast í augu við staðreyndir og jafnvel gamlir samherjar hennar sjá sig knúna til að taka til máls. En tregða stjórnarflokkanna til að horfast í augu við veruleikann er efnahagslegt vandamál í sjálfu sér. Þessi tregða kemur ekki síst fram í stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum.

Þrátt fyrir hinar miklu breytingar sem eru að verða á Evrópusambandinu, ekki síst vegna uppnáms í myntsamstarfinu og skuldastöðu einstakra aðildarríkja, er haldið áfram í blindni eins og ekkert hafi í skorist. Umsókn um aðild að ríkjasambandi, sem enginn veit hvernig mun þróast í náinni framtíð, skal haldið til streitu. Slíkt er ekki aðeins óábyrgt heldur beinlínis skaðlegt hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Varlega stíga þeir þó fram, einn af öðrum, stuðningsmenn aðildarumsóknarinnar á Alþingi - þeir sem tryggðu meirihlutann - og segjast aldrei hafa meint að þeir vildu inn í sambandið.



Við eigum alla möguleika

Í haust lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram ítarlegar tillögur í efnahagsmálum. Meginmarkmiðið er að skapa störf og verja heimilin og fyrirtækin. Með raunhæfum hætti er hægt að stórauka fjárfestingu, styrkja atvinnulífið, fjölga störfum, draga til baka skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og auka ráðstöfunartekjur heimilanna.

Nú við upphaf nýs árs er engin ástæða til annars en líta með bjartsýni til framtíðarinnar. Við skulum gefa okkur sjálfum það heit að á nýju ári verði framtakssemi fólksins í landinu virkjuð. Með því að leysa úr læðingi krafta einstaklinganna mun næsta framfaraskeið hefjast. En til þess þarf nýja stjórn, - nýja stefnu.

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins óska ég landsmönnum öllum gleðilegs árs með ósk um velfarnað á komandi ári.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×