Handbolti

Strákarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur af 19 marka manninum í Serbíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjetil Strand í leik á móti Íslandi.
Kjetil Strand í leik á móti Íslandi. Mynd/AFP
Kjetil Strand, norski landsliðsmaðurinn sem skoraði 19 mörk á móti íslenska landsliðinu í EM í Sviss 2006, verður ekki með norska landsliðinu á EM í Serbíu í næsta.

Strand er meiddur á hásin og þarf að fara í aðgerð í næstu viku. Hann ætlar þó líklega að vera með norska liðinu í Serbíu til að styðja félagana í baráttunni.

„Það er alltaf svekkjandi að vera meiddur og þetta er heldur ekki í fyrsta sinn á ferlinum sem það kemur fyrir," sagði Kjetil Strand við NRK.

Strand, sem er 32 ára, leikur nú með Viking í Stavanger í norsku deildinni en var í herbúðum Füchse Berlin frá 2007 til 2010. Hann hefur skorað 473 mörk í 102 landsleikjum fyrir Noreg.

„Norska liðið mun örugglega standa sig vel án mín en við erum samt í ótrúlega erfiðum riðli. Það verður mjög erfitt að komast upp úr honum," sagði Strand en Norðmenn eru í riðli með Íslandi, Króatíu og Slóveníu. Þrjú efstu liðin komast í milliriðil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×