Erlent

Siku slær í gegn á netinu

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Rúmlega mánaðargamall grænlenskur ísbjarnarhúnn hefur náð að bræða hjörtu þúsunda netverja með augnaráðinu einu.

Hvítabjarnarhúnninn Siku í dýragarðinum í Kolind í Danmörku er ein skærasta stjarna netheima um þessar mundir.

Gestir vefsíðu garðsins hafa aldrei verið jafn margir og eftir fæðingu hans en þar hefur verið hægt að fylgjast með honum vaxa og dafna. Þúsundir hafa beðið í ofvæni eftir að sjá húninn opna augun í fyrsta sinn, sem sá stutti gerði í gær, þá 34 daga gamall.

Siku fæddist í dýragarðinum 22. nóvember síðastliðinn og var tekinn frá móður sinni einungis tveggja daga gamall þar sem hún gat ekki mjólkað nægilega mikið til að næra hann.

Húnninn er nú í umsjá þriggja starfsmanna sem fylgjast með honum dag sem dimma nótt. Það fer einstaklega vel um þennan hvíta hnoðra sem á eflaust eftir að halda áfram að bræða hjörtu mannfólksins með ekki stærri afrekum en að opna augun, reka tunguna út úr munninum og velta sér á hliðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×