Handbolti

Alfreð og Dagur mætast í kvöld - „erum vinir“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bob Hanning og Dagur Sigurðsson.
Bob Hanning og Dagur Sigurðsson. Nordic Photos / Bongarts
Það verður stórleikur í þýsku bikarkeppninni í kvöld þegar tvö efstu lið úrvalsdeildarinnar, Kiel og Füchse Berlin, mætast í Berlín.

Þjálfarar liðanna eru íslenskir - þeir Dagur Sigurðsson hjá Füchse og Alfreð Gíslason hjá Kiel.

„Við tölum ekki í síma á hverjum degi en við erum vinir,“ sagði Dagur í samtali við þýska dagblaðið Berliner Kurier en í grein blaðsins er mikið gert úr þeirri staðreynd að þrjú af bestu liðum þýsku úrvalsdeildarinnar eru þjálfuð af Íslendingum - sá þriðji er Guðmundur Guðmundsson hjá Rhein-Neckar Löwen.

Þar að auki hefur landsliðið náð góðum árangri, til að mynda unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Íslendingar séu aðeins 320 þúsund talsins og erfitt sé að ímynda sér að allir leikmenn þýska landsliðsins kæmu frá Lichtenberg-hverfinu í Berlínarborg, þar sem um 260 þúsund manns búa. Alls búa um 82 milljónir í Þýskalandi.

Hvað er þá leyndarmálið við þennan góða árangur íslensks handboltafólks? „Það er góð spurning,“ sagði Dagur. „Ég var líka spurður af þessu sama af íslenskum blaðamanni um daginn. Ég veit það svo sem ekki - kannski erum við bara svona metnaðarfull.“

Kiel hefur unnið alla sextán leiki sína til þessa á tímabilinu í þýsku úrvalsdeildinni og Alfreð segir að leikurinn í kvöld verði erfiður fyrir sína menn.

„Bob Hanning framkvæmdarstjóri og Dagur hafa staðið sig ótrúlega vel. Það eru tveir mjög sterkir leikmenn um hverja stöðu og með Iker Romero eru þeir með leikmann sem getur komið mjög öflugur inn í hvað leik sem er.“

Dagur er hvergi banginn fyrir leikinn í kvöld. „Við þekkjum Kiel mjög vel. Þar fyrir utan hefur mér gengið þokkalega með Alfreð. Þegar hann var hjá Magdeburg þá vann ég hann í Meistaradeildinni þegar ég var hjá Bregenz í Austurríki. Svo höfum við líka unnið Kiel áður. Kiel er sigurstranglegri aðilinn en við eigum möguleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×