Handbolti

Rhein-Neckar Löwen datt út úr þýska bikarnum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Rhein-Neckar Löwen duttu út fyrir þýsku meisturunum í HSV Hamburg í sextán liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld. HSV Hamburg vann leikinn 33-32 í framlengingu en Michael Kraus skoraði sigurmark Hamburg af vítalínunni.

Rhein-Neckar Löwen var með frumkvæðið stærsta hluta leiksins, var 14-12 yfir í hálfeik og með tveggja marka forskot, 28-26, þegar aðeins hálf mínúta var eftir af leiknum. Blazenko Lackovic minnkaði muninn og Hans Lindberg tryggði Hamburg síðan framlengingu úr hraðaupphlaupi eftir að Börge Lund hafði tapað boltanum.

Það var jafnt á öllum tölum í framlengingunni en Michael Kraus skoraði sigurmarkið úr víti 50 sekúndum fyrir leikslok. Dan Beutler tryggði síðan sínum mönnum sigurinn með því að verja lokaskot leiksins frá Karol Bielecki.

Uwe Gensheimer skoraði níu mörk fyrir Löwen og  Karol Bielecki var með sjö mörk. Róbert Gunnarsson komst ekki á blað í leiknum. Michael Kraus skoraði 9 mörk fyrir Hamburg þarf af 8 þeirra úr vítum.

Kiel, Flensburg-Handewitt, Hannover-Burgdorf og TV 1893 Neuhausen komust einnig áfram í bikarnum í kvöld. Hannes Jón Jónsson var með 4 mörk í 34-25 sigri Hannover-Burgdorf á Friesenheim en Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk og Ásgeir Örn Hallgrímsson var með eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×