Handbolti

Jesper Nielsen: Þreyttur á því að senda mína leikmenn á HM og EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen
Mikkel Hansen Mynd/Heimasíða AG
Jesper Nielsen, eigandi Íslendingaliðsins AG frá Kaupmannahöfn, segir í viðtali við DR að það sé alltof mikið álag á bestu handboltamönnum heims. Hann vill fá umræðu um að fækka leikjum í handboltanum.

„Ég ætla að berjast fyrir fækkun leikja. Ég er orðinn þreyttur á því að senda mína leikmenn á HM og EM á hverju ári. Leikmennirnir eru að brenna út á þessu," sagði Jesper Nielsen.

Íslensku landsliðsmennirnir Snorri Steinn Guðjónsson, Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson spila allir með AG og allir nema Ólafur verða væntanlega með á EM í Serbíu í janúar.

Jesper Nielsen var pirraður eftir að danski landsliðsmaðurinn Mikkel Hansen meiddist í tapinu á móti Kiel í Meistaradeildinni í gær.

„Mikkel Hansen fær ekki sumarfrí fyrr en 2013. Það er ekki eðlilegt og eitthvað sem er ekki hægt að láta bjóða sér. Það er skiljanlegt að hann meiðist við svona meðferð," sagði Nielsen svekktur.

„Leikmaður má að mínu mati ekki spila meira en einn leik á viku sem gerir um 40 leiki á tímbili. Hér er ég að tala um alla leiki, líka þá sem hann spilar með landsliðinu," sagði Nielsen.

AG Kaupmannahöfn spilar um 34-35 leiki í dönsku deildinni á þessu tímabili en svo bætast við bikarleikir og leikir í Meistaradeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×