Erlent

Clarkson í klandri: Sjálfselska að kasta sér fyrir lest

Mynd/AFP
Jeremy Clarkson stjórnandi Top Gear á BBC er enn á ný kominn í klandur vegna ummæla sinna. Á dögunum varð allt vitlaust þegar hann sagði að réttast væri að taka þá sem tóku þátt í allsherjarverkfallinu í Bretlandi í vikunni af lífi fyrir framan fjölskyldur þeirra. Nú er hann enn á milli tanna fólks í Bretlandi eftir að hafa skrifað í pistli í The Sun að þeir sem fremji sjálfsmorð með því að henda sér fyrir lest séu sjálfselskir.

„Ég hef djúpa samúð með þeim eiga svo erfitt að þeir trúa því að kaldur faðmur dauðans sé lausnin,“ skrifar Clarkson. „En, á hverju ári ákveða um 200 einstaklingar að besta leiðin til að kveðja þennan heim sé að kasta sér fyrir lest. Að nokkru leyti hafa þeir rétt fyrir sér. Nítíu prósent líkur eru á því að þetta virki og það tekur fljótt af.“

„Þetta er hinsvegar afar sjálfselsk leið, þar sem tafirnar sem af þessu hljótast eru gríðarlegar,“ bætir hann við og hvetur yfirvöld til þess að eyða sem minnstum tíma í að þrífa upp líkamsleifarnar til þess að hægt sé að koma lestinni af stað eins fljótt og hægt er.

Forsvarsmenn samtaka sem berjast gegn sjálfsvígum hafa tekið ummælin afar óstinnt upp eins og gefur að skilja og sumir hafa bent á að þau séu sérstaklega ósmekkleg í ljósi þess að knattspyrnumaðurinn Gary Speed framdi sjálfsmorð í síðustu viku.


Tengdar fréttir

Clarkson hneykslar - verkfallsmenn ætti að taka af lífi

Breska ríkisútvarpið hefur beðist afsökunar á ummælum sem Jeremy Clarkson, þáttastjórnandi bílaþáttarins Top Gear lét falla í beinni útsendingu í spjallþættinum The One Show á BBC. Þar var Clarkson spurður út í verkfall opinberra starfsmanna í Bretlandi sem boðað var til í gær og sagði hann réttast að taka starfsmennina af lífi fyrir framan fjölskyldur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×