Handbolti

HM 2011: Ótrúlegar sveiflur í íslenska riðlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karen Knútsdóttir í leiknum gegn Angóla í gær.
Karen Knútsdóttir í leiknum gegn Angóla í gær. Mynd/
Íslenska liðið og önnur í A-riðli fá kærkomið frí á HM í handbolta í dag en mótið fer fram í Brasilíu. Ótrúlegar sveiflur hafa verið á milli leikja á fyrstu tveimur keppnisdögunum.

Stelpurnar okkar gáfu tóninn með því að vinna óvæntan en afar sætan sigur á sterku liði Svartfellinga í fyrsta leik riðilsins á laugardaginn, 22-21.

Noregur er núverandi Ólympíu- og Evrópumeistari en tapaði samt fyrir Þýskaland á laugardaginn, 31-28. Þýskaland náði hins vegar ekki að fylgja eftir þessum góða sigri í gær og tapaði þá fyrir Svartfjallalandi, 25-24.

Norðmenn náðu sér hins vegar á strik með risasigri á Kínverjum, 43-16. Kínverjar höfðu einmitt tapað fyrir Angóla með minnsta mun, 30-29, daginn áður en af þeim úrslitum að dæma virtust þessi tvö lið svipuð að styrkleika.

En þá gerði Angóla sér lítið fyrir og vann íslenska liðið í lokaleik dagsins í gær, 28-24. Angóla tapaði reyndar fyrir Bretum á æfingamóti í Lundúnum nokkrum dögum fyrir mót en trónir nú á toppi þessa ótrúlega A-riðils með fullt hús stiga.

Öll önnur lið eru með tvö stig nema Kína sem er í neðsta sæti án stiga og með 28 mörk í mínus.

Leikirnir á morgun:

17.00 Svartfjallaland - Angóla

19.15 Noregur - Ísland

21.30 Þýskaland - Kína




Fleiri fréttir

Sjá meira


×