Handbolti

Þýsku dómarabræðurnir létust í bílslysi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernd Methe og Reiner Methe.
Bernd Methe og Reiner Methe. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Þýsku dómararnir Bernd og Reiner Methe létust í kvöld í bílslysi á leið sinni til Balingen þar sem þeir áttu að dæma leik Balingen og Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni. Þetta kom fram í þýskum fjölmiðlum í kvöld.

Bíll þeirra fór yfir á öfugan vegarhelming og lenti framan á trukk. Þetta er mikið áfall fyrir þýskan handbolta og dómarastéttina í heiminum.

Leik HBW Balingen-Weilstetten og SC Magdeburg var að sjálfsögðu frestað en Björgvin Páll Gústavsson er leikmaður Magdeburg. Þeir Bernd og Reiner Methe áttu einnig að dæma leik RK Krim Ljubljana og Larvik HK í Meistaradeild kvenna á sunnudaginn.

Bernd og Reiner voru tvíburar og 47 ára gamlir. Þeir eru í hópi fremstu dómarapara heims og hafa dæmt saman frá árinu 1988. Þeir hafa verið með alþjóðaréttindi síðan árið 1998 og hafa dæmt saman 206 alþjóða leiki þar af marga með íslenska landsliðinu.

Rúta Magdeburg-liðsins keyrði framhjá slysstaðnum en Björgvin Páll og félagar vissu ekki fyrr en eftir á að þetta hafi verið bíll dómaranna.

„Heimurinn er hruninn hjá okkur leikmönnum. Við þekktum tvíburana mjög vel," sagði markvörðurinn Gerrie Eijlers, liðsfélagi Björgvins Páls hjá Magdeburg, við þýska fjölmiðla í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×