Handbolti

Jafntefli í frumraun Füchse í Meistaradeildinni - stórsigur Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guardiola Villaplana og félagar í Atletico Madrid fagna sigri sínum í Danmörku í gær.
Guardiola Villaplana og félagar í Atletico Madrid fagna sigri sínum í Danmörku í gær. Nordic Photos / AFP
Fjölmargir leikir fóru fram um helgina í Meistaradeild Evrópu í handbolta og voru fjölmargir Íslendingar í eldlínunni með sínum liðum.

Füchse Berlin þreytti frumraun sína í Meistaradeildinni og gerði jafntefli, 31-31, við rússneska liðið Chekhovskie Medvedi á útivelli.

Füchse var með forystu lengi vel í leiknum og hafði liðið mest fimm marka forystu snemma í síðari hálfleik, 23-18. Landsliðsmaðurinn Alexander Petersson er á mála hjá Füchse Berlin.

Í sama riðli gerði tapaði danska liðið Bjerringbro-Silkeborg fyrir Atletico Madrid, 30-27. Guðmundur Árni Ólafsson lék þá sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni og skoraði eitt mark fyrir danska liðið. Atletico Madrid hét áður Ciudad Real og er stórveldi í evrópskum handknattleik sem kunnugt er.

Pólska liðið Kielce er sömuleiðis í B-riðli og tapaði í gær fyrir Veszprem frá Ungverjalandi á heimavelli sínum, 29-25. Þórir Ólafsson skoraði tvö mörk fyrir Kielce.

Það eru tvö Íslendingalið í D-riðli og unnu þau bæði leiki sína í gær. AG vann sex marka sigur á Partizan Beograd, 31-25, eins og áður hefur komið fram, og Kiel vann ungverska liðið Pick Szeged, 38-26 og það á útivelli.

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, tók út leikbann sem hann var dæmdur í undir lok síðustu leiktíðar fyrir ummæli gagnvart dómurum en það kom ekki að sök.

Aron Pálmarsson lék ekki með Kiel en hann hefur átt við smávægileg meiðsli að stríða að undanförnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×