Innlent

Konur sköruðu framúr á meðal rafvirkja

JMG skrifar
Konurnar lukkulegu með verðlaunin sín.
Konurnar lukkulegu með verðlaunin sín.
Tvær ungar konur hlutu um helgina verðlaun fyrir besta árangur á öllum hlutum sveinsprófa í rafvirkjun og rafeindavirkjun. Launakannanir RAFÍS hafa sýnt að konur með sveinsbréf eru með hærri heildar meðallaun en karlar.

Um helgina fengu nýsveinar í rafvirkjun, rafveituvirkjun og rafeindavirkjun afhent sveinsbréf. Veitt voru að venju verðlaun fyrir bestan árangur á sveinsprófi og í ár voru það tvær ungar konur Ágústa Ýr Sveinsdóttir rafvirki og Sylvía Dagsdóttir rafeindavirki sem náðu bestum árangri á öllum þremur sviðum sem verðlaunað var fyrir. Þetta er í fyrsta skipti í sögu rafiðnaðarins sem tvær konur ná bestum árangri á öllum hlutum sveinsprófanna í bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun á sama tíma.

Í tilkynningu frá Rafiðnaðarsambandi Íslands segir að þetta sanni að rafiðngreinar höfði ekki síður til kvenna en karla og fagnar sambandið því að áhugi kvenna hafi aukist á undanförnum árum. Þá hafa launakannanir sambandsins sýnt að rafkonur, þær konur sem hafa sveinsbréf í rafiðngreinum, hafa verið með hærri meðalheildarlaun en rafkarlar. Á síðasta ári var munurinn rúm tíu prósent og er þá búið að taka tillit til þess að karlar unnu tvöfalt meiri yfirvinnu en konur á tímabilinu. Þá vonar sambandið að árangur þessarra ungu kvenna verði hvatning fyrir ungt fólk að kynna sér rafiðnnám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×