Innlent

Um 60% vilja Hönnu Birnu en 13% vilja Bjarna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir nýtur töluverðs stuðnings í nýrri MMR könnun.
Hanna Birna Kristjánsdóttir nýtur töluverðs stuðnings í nýrri MMR könnun.
Um 59% aðspurðra í skoðanakönnun MMR segjast frekar vilja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur en Bjarna Benediktsson sem formann Sjálfstæðisflokksins, sé einungis litið til svara þeirra sem tóku afstöðu. Um  13,4% sögðust heldur vilja Bjarna en 27,9% sögðust hvorugt þeirra vilja.

Sé eingöngu litið til þeirra sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu Alþingiskosningum vildu 66,3% heldur að Hanna Birna gegndi formannsembættinu, 26,4% vildu heldur að Bjarni yrði áfram formaður og 7,3% vildu hvorugt þeirra.

Stuðningur við Hönnu Birnu reyndist jafnframt umtalsverður meðal stuðningsmanna Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri-grænna, eða á bilinu 47,8% til 59,8%.

Spurt var: Kosningar um forystu Sjálfstæðisflokksins fara fram á landsfundi flokksins dagana 17. til 20. nóvember næstkomandi. Í fjölmiðlum hefur verið rætt um tvo aðila sem gætu boðið sig fram til að gegna embættiformanns Sjálfstæðisflokksins, þau Bjarna Benediktsson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hvort þeirra myndir þú heldur vilja að yrði formaður Sjálfstæðisflokksins?

Alls svöruðu 893 einstaklingar spurningunni en könnunin var gerð dagana 9.-14. September 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×