Viðskipti innlent

Helmingur vinnufærra á Vopnafirði hjá HB Granda

Ríflega helmingur allra vinnufærra manna í Vopnafjarðarhreppi hefur nú atvinnu í nýendurbyggðu fiskiðjuverið HB-Granda á staðnum. Endurbyggingin hefur kostað um það bil fimm milljarða króna.

Góður gangur hefur verið í vinnslu á síld og makríl í fiskiðjuverinu það sem af er sumri, en það er sérhæft til að taka á móti uppsjávarfiskum , eða síld, makríl, loðnu og kolmunna.

Samkvæmt frétt á vefsíðu HB Granda er búið að taka á móti um 4.300 tonnum af síld og makríl, og þar af er síldaraflinn tæplega 2.600 tonn. Tveir nýir blásturfrystiklefar voru nýverið teknir í notkun og auka þeir verðmæti afurðanna, en afskurður og fiskur, sem ekki hentar til manneldisvinnslu, er bræddur í nýrri bræðslu  í verinu.

100 til 120 manns vinna að jafnaði á vöktum hjá fyrirtækinu og þótt kalt vor og sumarbyrjun hafi orðið þess valdandi að aflabrögð hafi verið minni en vonir stóðu til, hefur full vinnsla verið í frystihúsinu síðastliðinn hálfan mánuð.

Á Vopnafirði búa rösklega 500 manns, þannig að vel yfir helmingur allra vinnufærra manna í sveitarfélaginu vinnur hjá HB Granda, sem hefur höfuðstöðvar í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×