Viðskipti innlent

Helga Björk ráðin skrifstofustjóri borgarstjórnar

Helga Björk Laxdal lögfræðingur hefur verið ráðin skrifstofustjóri  borgarstjórnar.  

Í tilkynningu segir að Helga Björk útskrifaðist með embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands árið 1996 og hefur m.a. sótt sér framhaldsmenntun hjá lagadeild Harvard-háskóla og hjá H.Í. í opinberri stjórnsýslu, stjórnsýslu sveitarfélaga og rafrænni stjórnsýslu.

Hún hefur starfað sem fulltrúi sýslumanns og sem héraðsdómslögmaður, en hóf störf hjá Reykjavíkurborg á árinu 2003. Síðustu 6 ár hefur hún starfað sem yfirlögfræðingur Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar.

Alls sóttu 13 um stöðu skrifstofustjóra borgarstjórnar og sá Hagvangur ehf.  um ráðgjöf og úrvinnslu umsókna.

Skrifstofustjóri borgarstjórnar sér um faglegan undirbúning og hefur umsjón með fundum borgarstjórnar og borgarráðs. Hann veitir lögfræðilega ráðgjöf, miðlar upplýsingum og veitir borgarstjórn, borgarráði, borgarfulltrúum og fagráðum þjónustu varðandi fundarsköp, stjórnkerfi, ný lög, reglugerðir og stjórnvaldsfyrirmæli. Þá hefur hann umsjón með framkvæmd almennra kosninga í Reykjavík og veitir umsögn um lagafrumvörp og rekstrarleyfi veitingastaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×