Viðskipti innlent

Enginn vöxtur í útlánum bankanna

Vöxtur útlána innlánsstofnana virðist enn sama sem enginn. Hins vegar hefur nýjum lánum Íbúðalánasjóðs fjölgað um 30% fyrstu fjóra mánuði ársins í samanburði við sama tímabili árið að undan.

Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Þar segir að endurskipulagning skulda heimila virðist nokkuð vel á veg komin. Um 20% útlána til heimila eru í vanskilum en tæpur helmingur þeirra er kominn í innheimtu eða gjaldþrot og hinn helmingurinn er í endurskipulagningarferli, um afganginn, sem er nokkrar prósentur, ríkir enn óvissa.

Einnig virðast skuldir heimila sem hlutfall af hreinni eign og ráðstöfunartekjum vera að minnka. Hins vegar er meira verk enn óunnið hjá fyrirtækjunum því um 45% lána stóru viðskiptabankanna þriggja til fyrirtækja eru í vanskilum en um helmingur þeirra er í endurskipulagningarferli.

Fjárhæð vanskila hefur lítillega lækkað þótt vanskilahlutfallið hafi lítið breyst að undanförnu, og skýrist m.a. af því að útlán hafa einnig dregist saman. Skuldsetning fyrirtækja er enn mjög mikil og í lok mars 2011 var hún metin um 243% af landsframleiðslu, sem er talsvert hærra en t.d. á Evrusvæðinu (um 98% í lok 2010) og í Bandaríkjunum (um 75% í lok 2010).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×