Viðskipti innlent

CCP semur við Nexon í Japan

CCP og Nexon hafa tilkynnt um samstarf, dreifingu og útgáfu á netleiknum EVE Online í Japan. Áformað er að japönsk útgáfa af leiknum komi á markað í haust, en með henni munu Japanir geta spilað leikinn á sínu móðurmáli í fyrsta sinn. CCP hefur þegar gefið EVE Online út í þýskri, rússnenskri og kínverskri útgáfu, samhliða upphaflegu útgáfunni sem er á ensku.

Í tilkynningu segir að Nexon sé einn öflugasti útgefandi og dreifingaraðili tölvuleikja í Japan og Asíu. Fyrirtækið er með 28 milljónir viðskiptavina gegnum sitt eigið sölunet og með starfsemi í 72 löndum. Samstarfið er liður í alþjóðlegri sókn CCP, sem lengi hefur áformað að markaðsetja EVE Online á Japansmarkað, sem er fjórði stærsti markaður heims í sölu á netleikjum.

“Með hliðsjón af frábæru orðspori Nexon sem leiðandi leikjaframleiðanda og útgefanda í Asíu voru þeir okkar fyrsta val sem samstarfsaðili við að gera leikinn aðgengilegri fyrir stækkandi aðdáendahóp EVE í Japan, ” segir Hilmar Veigar Pétursson framkvæmdastjóri CCP í sameiginlegri tilkynningu CCP og Nexon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×