Viðskipti innlent

Seðlabankinn gæti hagnast um hundruð milljóna

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Seðlabanki Íslands hefur sett hámarksverð við gjaldeyriskaup í seinni legg fyrsta gjaldeyrisútboðs bankans. Það merkir að bankinn gæti fengið hundruð milljóna í hreinan hagnað af útboðinu ef þátttaka er góð.

Einn af lykilþáttum nýjustu áætlunar stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta eru sérstök gjaldeyrisútboð seðlabankans. Útboðin eru framkvæmd í tveimur skrefum.

Í því fyrra býðst seðlabankinn til að kaupa aflandskrónur af erlendum aðilum, en þannig er hægt að tappa af svokölluðu óþolinmóðu fjármagni sem óttast er að myndi yfirgefa landið við lágu gengi ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöftin. Þessu fyrra skrefi í fyrsta útboði seðlabankans lauk fyrir tveimur vikum, en þá var verðið á evrunni tæplega 219 krónur að meðaltali.

Í seinna skrefi útboðsins býðst seðlabankinn svo til að nota krónurnar til að kaupa evrur, og þannig leiðir bankinn saman gjaldeyriseigendur sem vilja inn í landið og krónueigendur sem vilja út í tveimur skrefum. Hann greiðir fyrir evrurnar með ríkisskuldabréfum sem verða í bundnu eignarhaldi til 5 ára, og þannig er óstöðugum krónueignum skipt út fyrir stöðugar.

Hins vegar hefur seðlabankinn sett 210 króna hámarksverð á evruna í þessum seinni legg útboðsins.

Sé málið mikið einfaldað má þannig segja að bankinn hafi selt evrur dýrar en hann hyggst nú kaupa þær. Það merkir að ef þátttaka í útboðinu er góð, þá gæti bankinn haft að minnsta kosti 9 króna hagnað af hverri evru sem rúllar í gegn, en alls hljóða útboðin upp á meira en 60 milljónir evra hvort um sig. Samkvæmt útreikningum fréttastofu gæti seðlabankinn þannig gengið frá borðinu með á milli 500 til 600 milljón króna hreinan hagnað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×