Viðskipti innlent

Kísilfélagi tókst ekki að uppfylla fyrirvara

Íslenska kísilfélaginu, sem hyggst reisa kísilver í Helguvík, tókst ekki fyrir tilskilinn frest þann 15. júní að uppfylla fyrirvara sem voru í samningum um verkefnið og hefur neyðst til að biðja um lengri frest. Ekkert bólar á framkvæmdum.

Undirritun samninganna um kísilverið fyrir fjórum mánuðum lýsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar sem upphafi umskipta á Suðurnesjum og fjármálaráðherrann sagði samningana mikilvæg skilaboð um að menn hefðu trú á framtíðinni á Íslandi.

Samningarnir voru hins vegar undirritaðir með fyrirvörum, meðal annars um að Íslenska kísilfélaginu tækist að fjármagna verkefnið fyrir 15. júní, en gert var ráð fyrir að framkvæmdir á lóð fyrirtækisins væru komnar á fullt fyrir mitt sumar. Þar er hins vegar ekkert ennþá farið að gerast.

Magnús Garðarsson, forstjóri Íslenska kísilfélagsins, staðfestir að ekki hafi tekist að uppfylla alla fyrirvara fyrir 15. júní og að félagið hafi samið um nýjar dagsetningar. Hann vill hins vegar ekki greina frá ástæðu þess að ekki tókst að uppfylla fyrirvarana né hve langan viðbótarfrest félagið hefur fengið. Magnús vonast þó til að verkefnið verði ekki nema þremur vikum á eftir áætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×