Viðskipti innlent

Uppgjörið við hrunið hér á landi án fordæma í heiminum

Hafsteinn Hauksson skrifar
Stjórnarformaður Bakkavarar gagnrýnir bæði rannsóknaraðila bankahrunsins og rannsóknarskýrslu alþingis harkalega. Hann segir uppgjörið við hrunið hér á landi án fordæma í heiminum.

Lýður Guðmundsson er stjórnarformaður Bakkavarar, en hann er einn þeirra sem handtekinn var í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á starfsemi vátryggingafélags Íslands undir lok maímánaðar.

Hann fullyrðir að á hann hafi verið bornar fjarstæðukenndar sakir í yfirheyrslu sérstaks saksóknara. Á einum tímapunkti í yfirheyrslunni hafi Rannsóknarskýrsla alþingis verið dregin upp og spurt upp úr henni, líkt og um rannsóknargagn væri að ræða.

Það mislíkaði Lýð, þar sem aldrei hafi verið rætt við hann eða aðra hjá Exista við gerð skýrslunnar, þrátt fyrir að miklu rými væri varið í fyrirtækið í skýrslunni. Auk þess sé skýrslan morandi í villum og röngum ályktunum hvað fyrirtækið varðar.

Hann segir að uppgjörið hér á landi eigi sér ekki fordæmi erlendis, til dæmis hafi enginn verið ákærður vegna undirmálslána í Bandaríkjunum þrátt fyrir hin miklu áhrif þeirra í hruninu.

Lýður skrifar ítarlega grein um rannsókn bankahrunsins, sem birtist í Fréttablaðinu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×