Viðskipti innlent

Fullnustueignir auglýstar og boðnar til sölu á almennum markaði

Landsbankinn birtir í dag nýja stefnu um sölu og ráðstöfun fullnustueigna bankans. Í tilkynningu frá bankanum segir að stefnan sé hluti af innleiðingu sjónarmiða samfélagslegrar ábyrgðar í rekstri Landsbankans. „Landsbankinn kynnti aðgerðalista í febrúar og eitt af loforðum á listanum var að tryggja opið og gagnsætt söluferli allra fullnustueigna bankans. Með því að birta og innleiða stefnu um sölu fullnustueigna er bankinn að efna það loforð.“

Þá segir að meginmarkmið stefnunnar sé að Landsbankinn ætlar að fylgja góðum viðskiptaháttum og selja fullnustueignir eins fljótt og unnt er í opnu og gagnsæju söluferli. „Landsbankinn fylgir skilgreindu söluferli til að tryggja hagsmuni viðskiptavina við sölu á fullnustueignum.“

Jafnfram segir að allar fullnustueignir skulu auglýstar og boðnar til sölu á almennum markaði, brjóti það ekki gegn lögvörðum hagsmunum viðskiptavina bankans. „Fullnustueignir eru verðmetnar af viðurkenndum sérfræðingum.  Minni fasteignir, ökutæki og lausafjármunir eru boðnar til sölu eins fljótt og unnt er. Óskráð verðbréf, s.s. hlutabréf í fyrirtækjum eru seld í opnu söluferli á almennum markaði ef það eru ekki viðskiptalegir annmarkar þar á. Áætlun um sölu stærri fasteigna og fyrirtækja í samkeppnisrekstri liggur fyrir opinberlega innan sex mánaða frá því að bankinn öðlast umráðarétt yfir eigninni.“

„Við gerð stefnunnar er tekið mið af grunnreglum samfélagslegrar ábyrgðar eins og þeim er lýst í leiðbeiningum alþjóða staðlaráðsins (ISO 26000), viðmiðum Global Compact verkefnis Sameinuðu þjóðanna og reglum Samkeppniseftirlitsins. Landsbankinn er samfélagslega ábyrgur banki þar sem efnahags-, samfélags- og umhverfismálum er fléttað saman við starfshætti bankans. Landsbankinn vill tryggja ávinning af rekstri bankans bæði fyrir samfélagið og hluthafa,“ segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×