Viðskipti innlent

Plastiðjan höfðar mál á hendur Sp-fjármögnun

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Plastiðjan hefur höfðað mál á hendur Sp-fjármögnun vegna endurútreiknings á lánssamningi, sem hún segir vera byggðan á röngum forsendum. Niðurstaða dómsins mun hafa ríkt fordæmisgildi, segir lögmaður Plastiðjunnar.

Sp-fjármögnun var birt stefna í morgun vegna gengistryggðs bílaláns sem fyrirtækið Plastiðjan tók í janúar 2007. Málsóknin snýst fyrst og fremst um það hvort Sp-fjármögnun sé heimilt að endurútreikna lánasamninginn þannig að reiknaðir séu óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands á höfuðstól þegar greiddra afborganna. Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Plastiðjunnar, segir fyrirtækið hafa staðið í skilum allt frá fyrstu afborgun í mars 2007.

„Undir slíkum kringumstæðum telja mínir umbjóðendur að það geti ekki staðist og að það sé beinlínis andstætt lögum að núna fjórum árum seinna sé verið að krefjast um greiðslur aftur í tímann miðað við seinni tíma endurútreikning," segir Einar Hugi.

Annað atriði í málsókninni lítur að þeirri aðferðarfræði sem SP-fjármögnun beitir varðandi vaxtavexti, en Einar Hugi segir fyrirtækið leggja vaxtavexti við mánaðarlegar greiðslur inn á veltureikning.

„Ég tel að þetta sé í brýnni andstöðu við skýr ákvæði í vaxtalögum sem segja skýrt að slíka vaxtavexti skuli leggja á einu sinni á ári, en ekki oftar. Þannig að um þetta verður tekist á í þessu dómsmáli einnig," segir hann.

Einar Hugi telur brýnt að niðurstaða fáist fyrir dómstólum, hratt og vel, um réttmæti þeirrar aðferðarfræði sem beitt er við endurútreikning bílalána.

„Þetta mál mun vissulega hafa ríkt fordæmisgildi gagnvart öðrum að minnsta kosti hvað varðar endurútreikning hjá SP-fjármögnun," segir hann.

Málið verður þingfest í fyrramálið, Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri SP-Fjármögnunar, vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í dag










Fleiri fréttir

Sjá meira


×