Viðskipti innlent

Seðlabankinn íhugar að vísa dagsektum til dómtóla

Seðlabankinn íhugar nú hvort óhjákvæmilegt sé fyrir bankann að vísa til dómstóla dagsektum sem úrskurðað var að bankinn skyldi greiða. Það var áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem ákvað að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um dagsektir skyldu standa þar sem bankinn hafði hafnað því að veita eftirlitinu umbeðnar upplýsingar um útlán banka og sparisjóða.

Í tilkynningu frá Seðlabankanum um málið segir: "Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2011 er nú til skoðunar í Seðlabanka Íslands. Það er mat Seðlabankans að úrskurðurinn muni að óbreyttum lögum hafa áhrif á þá starfsemi Seðlabankans sem felst í hagskýrslugerð.

Rík trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ríkisstofnunum sem sinna opinberri hagskýrslugerð og skulu upplýsingar sem aflað er til hagskýrslugerðar eingöngu notaðar í slíkum tilgangi. Þessi meginregla kemur fram í lögum nr. 163/2007 sem fjalla um opinbera hagskýrslugerð og er m.a. byggð á verklagsreglum sem byggja á tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Í því felst að verklagsreglurnar gilda fyrir íslensk stjórnvöld og opinberar stofnanir sem fást við opinbera hagskýrslugerð á Íslandi.

Úrskurður áfrýjunarnefndarinnar verður því skoðaður vandlega í ljósi hinnar ríku trúnaðar- og þagnarskyldu, m.a. hvort óhjákvæmilegt sé að vísa málinu til dómstóla."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×