Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri rannsakar leynifélög í Lúxemborg

Ríkisskattstjóri hefur grunsemdir um að skattur hafi ekki verið greiddur af viðskiptum með íslensk hlutabréf hjá félögum í Lúxemborg. Hefur skattstjóri því sótt ársreikninga 30-40 félaga í eigu Íslendinga, sem skráð eru þarlendis, til að skattleggja arð og söluhagnað hlutabréfa sem runnið hafa til félaganna. Viðskiptablaðið skýrir frá þessu.

Er talið að viðkomandi félög hafi ekki greitt skatt vegna þessara tekna, samkvæmt íslenskum lögum. Því verður eigendunum stefnt, til að fá fram tæmandi upplýsingar um eignir sem geymdar eru í Lúxemborg.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti verið um hundruð milljóna króna að ræða.

Í tæp tvö ár hefur ríkisskattstjóri unnið að rannsókn á eignarhaldi félaga sem skráð eru á utangarðsskrá embættisins, þ.e. skrá yfir öll erlend félög sem úthlutað hefur verið kennitölu á Ísland.

Tilgangurinn er að kanna hvort eitthvert þessara félaga, sem eru í eigu Íslendinga, hafi haft fjárfestingartekjur af íslenskum eignum, annað hvort í formi söluhagnaðar eða arðgreiðslna.

Slíkar tekjur eru skattskyldar á Íslandi að mati ríkisskattstjóra en embættið grunar að maðkur sé í mysunni hjá einhverjum af framangreindum félögum hvað varðar skil á skattinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×