Viðskipti innlent

Nær 80% stjórnenda telja efnahagsaðstæður slæmar

Ekki er hægt að segja annað en að enn ríkir mikil svartsýni á meðal íslenskra stjórnenda á ástandið í efnahagslífinu og hefur afstaða þeirra til þess lítið batnað frá bankahruni. Nær 80% stjórnenda telja að aðstæðurnar séu slæmar.

Þetta má sjá úr niðurstöðum ársfjórðungslegrar könnunar sem Capacent Gallup gerir á meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins um aðstæður í efnahagslífinu en hún sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra telur aðstæður slæmar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greingar Íslandsbanka. Þar segir að þannig telji 78% stjórnenda aðstæður í efnahagslífinu slæmar, 21% telja þær hvorki góðar né slæmar og einungis 2% að þær séu góðar. Eru þetta mjög svipaðar niðurstöður og fengust úr síðustu könnun sem var gerð í mars síðastliðnum en þá töldu 79% aðstæður slæmar, 19% aðstæður hvorki góðar né sæmar og 2% að þær væru góðar.

Könnunin var gerð á tímabilinu 17. maí til 19. júní 2011 og voru niðurstöður hennar birtar á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins (SA) í gærmorgun.

Stjórnendur telja að aðstæður eftir 6 mánuði verði töluvert lakari en í síðustu könnunum. Þannig telja aðeins 19% stjórnenda að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði sem eru hlutfallslega færri en í síðustu könnun þegar um 22% þeirra sá fram á betri tíð eftir 6 mánuði. Jafnframt hefur fjölgað í hópi þeirra sem telja að ástandið eigi eftir að versna á næstu 6 mánuðum frá síðustu könnun, en þeir eru nú 31% en voru síðast 24%. Telja nú um 50% stjórnenda að ástandið verði óbreytt eftir 6 mánuði en í síðustu könnun var þetta hlutfall 54%.

Í könnuninni kemur fram að svartsýnin er mun meiri á meðal stjórnenda á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, sem er í takti við það sem verið hefur að undanförnu. Áfram er bjartsýni einna helst að finna á meðal stjórnenda í fjármálastarfsemi, þjónustu, iðnaði og verslun. Svartsýnin er mest á meðal stjórnenda hjá fyrirtækjum í byggingarstarfsemi en þar trúir enginn að það sé betri tíð í vændum en sem kunnugt er hefur sú starfsgrein farið einna verst út úr kreppunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×