Viðskipti innlent

Fasteignamat íbúða hækkar um 9% og verður 2.850 milljarðar

Alls eru skráðar tæplega 125.000 íbúðir á Íslandi. Samanlagt fasteignamat þeirra er um 2.600 milljarðar króna en verður um 2.850 milljarðar króna samkvæmt mati ársins 2012. Fasteignamatið hækkar með öðrum orðum um 9%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands. Þar segir að mat íbúðarhúsnæðis 2012 byggist á yfir 34.000 kaupsamningum frá júlí 2005 til apríl 2011.

Fasteignamarkaðurinn er greinilega að taka við sér á ný eftir hrun. Til marks um það er að um 800 kaupsamningar voru gerðir á fyrsta ársfjórðungi 2009, um 1.000 á fyrsta ársfjórðungi 2010 og um 1.300 á fyrsta ársfjórðungi 2011. Líflegri fasteignamarkaður styrkir grunn fasteignamatsins.

Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 6,3%. Mesta hækkun á landinu er á Norðurlandi vestra (11,9%) en minnsta hækkunin er á Austurlandi (2,8%). Hækkun fasteignamats í öðrum landshlutum er sem hér segir: Suðurnes (4,3%), Vesturland (9,6%), Vestfirðir (9,9%), Norðurland eystra (9,4%) og Suðurland (9,9%).

Fasteignamat á um 120.000 íbúðum hækkar (96% íbúðarhúsnæðis í landinu), mat á um 4.500 íbúðum lækkar en mat á um 550 íbúðum er óbreytt.

Heildarmat allra fasteigna á landinu verður hinsvegar 4.400 milljarðar kr. og hækkar um 6,8% milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×