Viðskipti innlent

Aflaverðmæti makríls gæti farið yfir 20 milljarða

Gissur Sigurðsson skrifar
Kraftur er nú kominn í makrílveiðarnar suður og austur af landinu og eru mörg skip þegar byrjuð veiðar. Aflaverðmæti af vertíðinni gæti farið yfir tuttugu milljarða króna.

Aflinn er ýmist unninn og frystur um borð í fjölveiðiskipunum, eða landað ferskum til vinnslu í landi. Nú er til dæmis þegar unnið á sólarhringsvöktum í þremur fiskiðjuverum í Vestmannaeyjum. 

Fjölmörg skip af öllum stærðum og gerðum hafa fengið leyfi til veiðanna í sumar, allt frá litlum trillum upp í stóra frystitogara og er kvótinn um það bil 150 þúsund tonn, eða heldur meiri en í fyrra. Litlu bátarnir ætla að veiða makrílinn á öngla og eru almennt ekki byrjaðir,  en stóru skipin veiða hann í troll.

Þessa dagana er makríllinn heldur í smærra lagi, en búist er við að stærri makríll finnist þegar líður á sumarið. Mun hærra hlutfall verður unnið til manneldis en áður, sem á sinn þátt í að aflaverðmætið fer að líkindum yfir 20 milljarða. Afurðaverð er vel viðunandi og markaðir góðir, en mest er selt til Austur- Evrópu og Afríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×