Viðskipti innlent

Starfsemi Kraums tryggð fram til ársins 2013

Kraumur tónlistarsjóður, sem stofnaður var af Auroru velgerðarsjóði í byrjun árs 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára, hefur tryggt áframhaldandi starfsemi sína til ársloka 2013. Það er því ljóst að íslenskt tónlistarlíf mun áfram njóta stuðnings frá sjóðnum, en á síðustu 3 árum hefur hann stutt við verkefni yfir 90 listamanna og hljómsveita.

Í tilkynningu segir að Kraumur standi á tímamótum á fleiri sviðum því Jóhann Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri sjóðsins. Jóhann tekur við Eldar Ástþórssyni, sem gengt hefur stöðu framkvæmdastjóra frá því sjóðurinn var stofnaður, sem nú er farinn til starfa fyrir tölvuleikjaframleiðandann CCP. Eldar mun þó áfram tengjast starfsemi Kraums því hann hefur tekið sæti í stjórn sjóðsins.

Jóhann Ágúst er með víðtæka reynslu úr íslensku tónlistarlífi þar sem hann hefur m.a. starfað við útgáfumál, skipulagningu viðburða og umboðsmennsku fyrir tónlistarmenn og hljómsveitir. Jóhann er menntaður viðskiptafræðingur úr HÍ en að auki hefur hann lært menningarstjórnun á Bifröst og nýlokið viðburðastjórnunarnámi frá Háskólanum á Hólum.

Kraumur var settur á laggirnar með það að markmiði að stuðla að og styrkja íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga tónlistarmenn og auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Frá upphafi hefur Kraumur unnið að því að styrkja tiltölulega fá verkefni og listamenn, en þá  þannig að stuðningurinn sé afgerandi. Það hefur að mörgu leyti tekist, en Kraumur hefur þó komið víða við á síðustu árum. Nú er svo komið að hátt í 90 listamenn og hljómsveitir, úr öllum geirum tónlistar, hafa hlotið stuðning frá Kraumi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×