Viðskipti erlent

Kaupþing með hlut í stærstu veitingahúsakeðju Bretlands

Skilanefnd Kaupþings verður meðeigandi að stærstu veitingahúskeðju Bretlands. Hún komst á laggirnar eftir að eigendur Town & City Pub Company Limited (Town & City) sem rekur meðal annars veitingahúsakeðjurnar Yates og Slug and Lettuce samþykkti samruna Town & City við Stonegate Pub Company Limited (Stonegate).

Fjallað er um málið á vefsíðu skilanefndar Kaupþings. Þar segir að við fjárhagslega endurskipulagningu í júlí 2009 urðu Kaupþing og Commerzbank ráðandi hluthafar í Town & City. Siðan þá hafa hluthafar félagsins fjárfest og stutt við reksturinn en þær aðgerðir hafa aukið verðmæti félagsins og skilað góðri ávöxtun en rekstur T&C hefur gengið vel þrátt fyrir erfiðar markaðsstæður.

Stonegate var stofnað af TDR Capital, sem er leiðandi fjárfestingafélag í Evrópu, við yfirtöku veitingastaða frá Mitchells & Butlers plc í nóvember 2010.

Sameinað félag mun kallast Stonegate Pub Company Limited og verður TDR Capital aðaleigandi félagsins. Kaupþing og Commerzbank munu vera minnihlutaeigendur og á meðal lánadrottna sameinaðs félags.

Eftir samrunann verður Stonegate stærsta einkarekna veitingahúsakeðja Bretlands með 560 veitingastaði, yfir 10.000 starfsmenn og tæplega hálfs milljarðs punda ársveltu.

Það er mat skilanefndar Kaupþings að samruninn styrki stöðu félagsins og sé mun betri kostur fyrir bankann og þar með kröfuhafa en sala á seinni stigum. Deloitte og Slaughter & May voru utanaðkomandi ráðgjafar Kaupþings í þessum viðskiptum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×