Viðskipti innlent

Óheimilt að beita vörslusviptingu

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag að Íslandsbanka væri óheimilt að beita vörslusviptingu ef skuldari hefur leitað nauðasamnings. Lögmaður skuldara segir ljóst að kanna þurfi réttarstöðu þeirra sem sætt hafa vörslusviptingu.

Árið 2006 gerði skuldarinn lánssamning við Íslandsbanka til að kaupa fellihýsi. Lánið var gengistryggt en fyrir ári síðan var skuldaranum veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Íslandsbanki lýsti þá yfir kröfu vegna nauðasamninga. Mánuði síðar krafðist svo bankinn þess að samningnum um fellihýsið yrði rift og að skuldarinn afhenti bankanum fellihýsið. Íslandsbanki taldi upphaflega lánssamninginn veita heimild til þess.

Skuldarinn neitaði að afhenda bankanum fellihýsið og málið endaði fyrir dómi. Héraðsdómur Reykjaness hefur nú úrskurðað að fjármögnunarfyrirtækjum sé óheimilt að krefjast vörslusviptingar ef nauðasamningar hafa verið staðfestir.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður skuldarans, segir ljóst að núna sé einstaklingum ekki skylt að skila tækjum við það eitt að fara í nauðasamninga eða greiðsluaðlögun. Ákvæði lánasamninga um riftun og beina aðför víki fyrir greiðsluaðlögun.

Sævar telur jafnframt að skoða þurfi réttarstöðu þeirra sem hafa þurft að skila tækjum á þessum grundvelli.

Í samtali við fréttastofu segir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka að við fyrstu sýn virðist þetta mál vera einstakt innan bankans og því sé efast um fordæmisgildi þess. Bankinn muni nú taka sér tíma til að kanna forsendur úrskurðarins og ákveða hvort málið verði kært til Hæstaréttar.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×