Viðskipti innlent

Vilja lögfesta aga í ríkisfjármálum

Hafsteinn Hauksson skrifar
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, leggur til að agi í ríkisfjármálum verði lögfestur hér á landi til að hægt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hætta sé á að skuldastaðan fari yfir hættumörk ella.

Í nýjustu skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD um Ísland er lögð áhersla á að ríkissjóður skili árlegum afgangi eftir 2013 og greiði niður skuldir sínar, eins og raunar er fyrirhugað. Það sé nauðsynlegt svo ríkissjóður hafi borð fyrir báru að bregðast við áföllum, en ef skuldastaðan skáni ekki gæti hún orðið sprengifim þegar högg kemur næst á hagkerfið.

„Á fjármálasviðinu leggjum við til að auka aga í ríkisfjármálunum til að styrkja fjárhagsstöðuna og stuðla að því að sú þróun sem varð fyrir nokkru endurtaki sig ekki," segir Patrick Lenain, einn af höfundum skýrslunnar.

Þannig er lagt til í skýrslunni að stjórnvöld setji sér skýrar reglur um jafnvægi í ríkisfjármálum, sem kæmu til viðbótar ýmsum stofnanabreytingum sem þegar hefur verið ráðist í til að gæta aðhalds. OECD stingur upp á að slíkar skorður verið lögfestar svo þeim verði örugglega fylgt eftir, líkt og gert hefur verið í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, en þar þurfa stjórnmálamenn að ganga á pólitískan höfuðstól sinn ef þeir hyggjast raska jafnvægi í ríkisfjármálunum tímabundið.

„Hugmyndin er í raun sú að setja nýjar reglur um skynsamar skorður sem ríkisstjórnin má ekki víkja frá. Hún þarf líka að skýra út fyrir almenningi hvers vegna halli sé á fjárlögum og hvernig hún hyggist ná skynsamlegri stöðu á ný í ríkisfjármálum. Þetta snýst um ábyrgð og gegnsæi og að ekki sé verið að blekkja almenning til að ná pólitískum ávinningi til skamms tíma,." segir David Carey, annar höfundur skýrslunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×