Viðskipti innlent

Arion innleiðir skjalakerfi frá Skýrr

Við undirritun samnings Arion banka við Skýrr um innleiðingu á nýju skjalakerfi fyrir bankann. Hægra megin við miðju standa þeir Höskuldur Ólafsson bankastjóri og Gestur G. Gestsson forstjóri.
Við undirritun samnings Arion banka við Skýrr um innleiðingu á nýju skjalakerfi fyrir bankann. Hægra megin við miðju standa þeir Höskuldur Ólafsson bankastjóri og Gestur G. Gestsson forstjóri.
Arion banki hefur undirritað samstarfssamning við Skýrr um umfangsmikla innleiðingu á EMC Documentum-skjalakerfi og gagnageymslu frá alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækinu EMC. Samningurinn felur í sér viðamiklar breytingar og framþróun á skjalavistun og gagnameðhöndlun Arion banka.

Í tilkynningu frá Skýrr segir að EMC Documentum geri til dæmis kleift að auka sjálfvirkni í ferlum og auka hraða og nákvæmni við flokkun þeirra, hýsingu og umsýslu. „Í samningnum er meðal annars kveðið á um nýjar kerfiseiningar fyrir skjöl, ferla, sniðmát, trúnaðargögn og tengdar öryggislausnir, ásamt skönnunarkerfi. Skýrr er sölu- og þjónustuaðili EMC á Íslandi.“

„Skýrr hefur undanfarin misseri unnið markvisst að því að efla teymi fyrirtækisins á sviði upplýsingatækni fyrir banka og fjármálastofnanir. Við höfum lengi verið í fremstu röð hér á landi á þessu sviði og ætlum að byggja ofan á það forskot. Höfum í því skyni bæði eflt hópinn og stækkað, ásamt því sem við höfum bætt við okkur hugbúnaðarlausnum og þjónustuþáttum. Við teljum að þessi mikilvægi samningur við Arion banka sé ávöxtur þeirrar viðleitni okkar," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.

„Arion banki er metnaðarfullur og kröfuharður viðskiptavinur, sem hefur ávallt verið í fremstu röð hér á landi í nýtingu upplýsingatækni. Bankinn leggur mikið upp úr gæðum og hagkvæmni í rekstri og ætlast til fyrsta flokks þjónustu af sínum birgjum. Fjármálastofnun af þessari stærðargráðu innleiðir ekki nýtt skjalakerfi nema að mjög vel athuguðu máli. Við erum því vitaskuld afskaplega stolt af þessum samningi og hlökkum mikið til samstarfsins við Arion banka," bætir Gestur við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×