Viðskipti innlent

Nær 1.000 milljarðar í orkufjárfestingar til ársins 2020

„Þegar þetta allt er tekið saman verða fjárfestingar vegna orkumannvirkja og samhliða uppbyggingu í iðnaði um 8 milljarðar dollara eða 917 milljarðar kr. til ársins 2020 og næðu hámarki á bilinu 2015-2019 í um einn milljarð dollara á ári eða 115 milljarða kr."

Þetta kemur fram í greiningu sem fjármálafyrirtækið GAMMA hefur unnið fyrir Landsvirkjun á mögulegri stöðu Landsvirkjunar árin 2025 til 2035 þegar núverandi framkvæmdatímabili Landsvirkjunar lýkur.

Til samanburðar er talið að heildarfjárfesting í virkjun á Kárahnjúkum og álveri á Reyðarfirði hafi verið um 259 milljarðar kr. m.v. núverandi gengi dollarans upp á 115 kr. á árunum 2004-2007 sem skiptist nokkuð jafnt á milli virkjunar og vers.

Í greiningunni segir m.a: „Þegar áhrif áformaðra framkvæmda á efnahagslíf Íslands eru metin eru það helst tveir þættir sem skipta máli: Annars vegar notkun framkvæmdaraðila á innlendum framleiðsluþáttum við verkefnið sjálft og hins vegar margfeldisáhrif fjárfestingarinnar hér innanlands.

Í þessari greiningu er reiknað með um 40-60% innlendri kostnaðarhlutdeild í orkufjárfestingum og 50% í iðnaðarfjárfestingum. Þetta hlutfall af fjárfestingu kemur þá með beinum hætti inn í landsframleiðslu á því árabili sem fjárfestingin á sér stað.

Miðað við þær forsendur mun fjárfesting í orku og iðnaði ásamt afleiddum áhrifum bæta við samtals að meðaltali um 1,4% við hagvöxt á ári til ársins 2017 en þá dragast fjárfestingar saman og hafa neikvæð áhrif á hagvöxt. Uppsöfnuð áhrif á hagvöxt munu ná hámarki í tæplega 10% árið 2017 og eitthvað af vextinum gengur þá til baka þegar fer að draga úr fjárfestingu en samt sem áður er gert ráð fyrir nokkuð stöðugum fjárfestingarferli út tímabilið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×